Tony Snow, talsmaður Hvíta hússins í Washington, segir Bandaríkjastjórn enn styðja Paul Wolfowitz, forstjóra Alþjóðabankans. Hann hafi vissulega gert mistök með afskiptum sínum af launamálum ástkonu sinnar innan bankans en þau séu ekki það veigamikil að ástæða sé til að krefjast afsagnar hans. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Við höfum tekið af allan vafa um það að við styðjum Paul Wolfowitz,” sagði Snow og bætti því við að sú ákvörðun væri bæði tekin vegna trausts á Wolfowitz og með tilliti til hagsmuna bankans.
Wolfowitz mun koma fyrir 24 manna bankastjórn bankans í dag en á þeim fundi verður ákveðið hvernig tekið verður á málinu af hálfu bankans.
Þegar Wolfowitz tók við sem forstjóri bankans árið 2005 var ástkona hans flutt á milli deilda innan hans til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Í kjölfarið hækkuðu laun hennar hins vegar af óútskýrðum ástæðum þannig að þau urðu nokkru hærri en laun Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rannsóknarnefnd bankans í málinu komst að þeirri niðurstöðu fyrir skömmu að Wolfowitz hefði gerst brotlegur með óeðlilegum afskiptum af málum konunnar.