Bandaríska heilbrigðiskerfið það versta meðal ríkra þjóða

Bandaríska heilbrigðiskerfið, sem er það dýrasta í heimi, kemur verst út úr samanburði við heilbrigðiskerfi í öðrum ríkum löndum, samkvæmt niðurstöðum tveggja athugana þarlendrar hugveitu sem birtar eru í dag. Skilvirkni bandaríska kerfisins er jafnan minni en annars staðar, og í Bandaríkjunum er ekkert almannatryggingakerfi.

Það var hugveitan Commonwealth Fund sem gerði athuganirnar, en bandaríska heilbrigðiskerfið var borið saman við það ástralska, breska, kanadíska, nýsjálenska og þýska. Aðallega var stuðst við viðtöl við lækna og sjúklinga í þessum löndum, þar sem þeir voru beðnir að segja frá reynslu sinni af og viðhorfum til heilbrigðiskerfisins hver í sínu landi.

Á flestum sviðum komu Bandaríkin verst út, þ.á m. hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu, öryggi sjúklinga, biðtíma og skilvirkni. Bandaríkjamenn voru ennfremur ólíklegastir til að hafa fastan heimilislækni.

„Bandaríkin verja tvöfalt meiru en önnur iðnríki að meðaltali til heilbrigðisþjónustu, en við fáum greinilega ekki mikið fyrir peningana,“ sagði Karen Davis, framkvæmdastjóri Commonwealth Fund. Bretland kom best út úr samanburðinum.

Í annarri athugun var sjónum beint að því hvers vegna kostnaður við heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum væri svo miklu meiri í Bandaríkjunum en átta öðrum OECD ríkjum. Meðal þess sem fram kom, var að sjúkrahúskostnaður í Bandaríkjunum er þrefalt meiri í Bandaríkjunum en öðrum ríkjum að meðaltali, og lyfjakostnaður tvöfalt meiri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert