Brasilíumaður dæmdur sekur um morð á nunnu

Dorothy Stang boðaði trúa og var umhverfisverndarsinni.
Dorothy Stang boðaði trúa og var umhverfisverndarsinni. AP

Brasilískur bóndi hefur verið dæmdur sekur um morð á Dorothy Stang, bandarískri nunnu og umhverfisverndarsinna. Dómstóll í borginni Belem dæmdi Vitalmiro Bastos Moura, sem er 36 ára gamall, í 30 ára fangelsi fyrir að hafa greitt byssumönnum að myrða hinn 73 ára gamla trúboða árið 2005.

Dorothy Stang barðist fyrir réttindum fátækra bænda og fyrir varðveislu regnskóganna gegn ágangi skógarhöggsmanna og verktaka.

Hún var myrt í kjölfar deilna við skógarhöggsmenn vegna lands sem þeir vildu ryðja og nýta undir beitiland, en hún vildi hinsvegar verja landið.

Dómarinn dæmdi Moura til að sæta hámarksrefsingu samkvæmt lögum.

Hann sagði að Moura hafi sýnt fram á „ofbeldishneigðan persónuleika sem er óhæfur til þess að búa í samfélagi manna“ og að morðið hafi verið framið á „huglausan máta“.

Aðgerðarsinnar líta á réttarhöldin sem prófraun um það hvort ríkisstjórnin geti gripið til aðgerða til að draga úr lögleysunni sem ríkir í Amazon, segir á fréttavef BBC.

Nunnan, sem er frá Ohio í Bandaríkjunum, bjó í hinum afskekkta bæ Anapu í yfir 20 ár. Þar hjálpaði hún bændum að verja landið sitt.

Hún fannst látin í febrúar 2005. Hún hafði verið skotin sex sinnum af stuttu færi.

Þrír menn, tveir byssumenn og milligöngumaður, hafa þegar verið dæmdir í fangelsi vegna morðsins, en réttarhöldin nú voru þau fyrstu sem hafa farið fram vegna einhvers sem fyrirskipaði árásina.

Síðar á þessu ári hefjast önnur réttarhöld yfir bónda er gert að sök að hafa fyrirskipað morð.

Sl. 30 ár hafa yfir 1.000 manns verið myrt í deilum sem tengjast eignarhaldi á landi í Brasilíu.

Vitalmiro Bastos Moura fyrirskipaði morðið á Stang. Hann var dæmdur …
Vitalmiro Bastos Moura fyrirskipaði morðið á Stang. Hann var dæmdur í 30 ára fangelsi. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert