Jerry Falwell látinn

Jerry Falwell, sem er kunnur sjónvarpsprédikari í Bandaríkjunum, lést á sjúkrahúsi í dag, en hann var fluttur á sjúkrahús í alvarlegu ástandi en hann fannst meðvitundarlaus á skrifstofu sinni í dag.

Falwell stofnaði á sínum tíma samtökin Moral Majority og varð einskonar táknmynd trúarhópa á hægrivæng bandarískra stjórnmála. Hann stofnaði síðar Liberty háskólann og var forseti hans.

Falwell var harður andstæðingur fóstureyðinga, réttindabaráttu samkynhneigðra og annarra mála sem brjóta í bága við kristna bókstafstrú. Yfirlýsingar hans um kvenréttindi og kynþáttamál vöktu oft uppnám og árið 2002 kallaði hann yfir sig reiði múslima þegar hann kallaði Múhameð spámann hryðjuverkamann. Hann baðst síðar afsökunar á því.

Skömmu eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 sagði hann að samkynhneigðir, guðleysingjar og baráttumenn fyrir mannréttindum og fóstureyðingum hefðu kallað reiði Guðs yfir Bandaríkin og stuðlað þannig að þessum atburðum.

Árið 1999 fordæmdi hann bresku barnasjónvarpsþættina um Stubbana vegna þess að hann taldi að ein fígúran í þættinum væri samkynhneigð.

Jerry Falwell.
Jerry Falwell. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert