Sautján ára gamall japanskur piltur kom inn á lögreglustöð í borginni Aizuwakamatsu, norður af Tókýó, og sagðist hafa orðið móður sinni að bana. Var hann með höfuð móður sinnar meðferðis í íþróttatösku. Lík konunnar fannst síðar á heimili hennar, að sögn japanskra fjölmiðla.
Pilturinn mun hafa sagt lögreglu, að hann hafi verið einn að verki en hann gaf engar sérstakar skýringar á verknaðinum.
Nokkur óhugnanleg morð hafa verið framin í Japan að undanförnu. Í gær fannst mannsfótur á floti í á í miðborg Tókýó. Í janúar var kona handtekin eftir að hún viðurkenndi að hafa myrt eiginmann sinn og sagað líkið sundur og skilið líkamspartana eftir á víð og dreif um Tókýó.