Ríkisstjórn Nígeríu hefur ákveðið að veita þeim föngum sem eru orðnir sjötugir eða eldri frelsi. Þetta er liður í aðgerðum sem ætlað er að gera endurbætur í fangelsismálum í landinu segir upplýsingaráðherra landsins, Frank Nweke.
„Sérhver fangi sem er orðinn 70 ára eða eldri ætti að verða leystur úr haldi á milli dagsins í dag og 29. maí 2007,“ sagði Nweke í samtali við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund.
Fráfarandi forseti Nígeríu, Olusegun Obasanjo, mun þann 29. maí afhenda nýrri stjórn völdin eftir átta ára valdasetu.
Nweke sagði að ríkisstjórnin hafi einnig ákveðið að dómi yfir föngum sem hafa setið á dauðadeildinni í að minnsta kosti 10 ár og hafa náð sextugsaldri eða meira verði breytt úr dauðadómi í lífstíðardóm.
Um 100 fangar eru 70 ára eða eldri í Nígeríu. Þá hafa um 200 fangar af þeim 700 sem sitja á dauðadeildinni náð sextugsaldri.