Sarkozy hvetur til einingar og umburðarlyndis

Nicolas Sarkozy tók við embætti forseta Frakklands í dag og í ávarpi sem hann flutti til frönsku þjóðarinnar hvatti hann til umburðarlyndis og einingar. Sagði Sarkozy nauðsynlegt að sameina Frakka og endurmeta gildi vinnu, ástundunar, verðleika og virðingar til að vinna bug á umburðarleysi. Sagði Sarkozy að í utanríkismálum myndi hann leggja áherslu á að verja mannréttindi og berjast gegn hlýnun andrúmsloftsins.

„Þjóðin hefur gefið mér umboð. Ég mun vinna að þeim verkefnum sem mér hafa verið falin með það að leiðarljósi, að verða verðugur þess trausts sem Frakkland hefur sýnt mér," sagði Sarkozy. „Ég mun verja sjálfstæði Frakklands, ég mun verka ímynd Frakklands. Ég mun tryggja að borin sé virðing fyrir ríkisvaldinu og hlutleysi þess.

Það er uppi krafa um breytingar. Aldrei hefur sú hætta, sem felst í aðgerðarleysinu, verið jafn mikil í Frakklandi og nú. Það eru miklar breytingar í heiminum og allir reyna að breytast hraðar en hinir og þá má ekki hika," sagði Sarkozy.

Nicolas Sarkozy er sjötti forseti fimmta lýðveldisins í Frakklandi. Charles de Gaulle var fyrsti forseti þess, árin 1959 til 1969. Georges Pompidou var forseti 1969 til 1974, Valery Giscard d'Estaing árin 1974 til 1981, Francois Mitterand árin 1981 til 1995 og Jacques Chirac, sem lét af embætti í dag, árin 1995 til 2007.

Jacques Chirac tekur á móti Nicolas Sarkozy, eftirmanni sínum, á …
Jacques Chirac tekur á móti Nicolas Sarkozy, eftirmanni sínum, á tröppum forsetahallarinnar í París. AP
Cecilia Sarkozy eiginkona Frakklandsforseta, kemur til forsetahallarinnar í morgun ásamt …
Cecilia Sarkozy eiginkona Frakklandsforseta, kemur til forsetahallarinnar í morgun ásamt börnum þeirra, Louis, Judith, JeanneMarie, Jean og Pierre. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert