Sósíalisti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sarkozy

Bæði Jacques Chirac (t.v) og Dominique de Villepin (t.h) létu …
Bæði Jacques Chirac (t.v) og Dominique de Villepin (t.h) létu af störfum í forsetahöllinni í París í morgun. . Reuters

Dominique de Villepin lét af störfum sem forsætisráðherra Frakklands í morgun og bað um lausn ríkisstjórnar sinnar í morgun en það er venja við forsetaskipti í Frakklandi. Sarkozy mun að öllum líkindum gera miklar breytingar á ríkisstjórninni og mun François Fillon líklegast taka við Villepin. Mikla athygli vekur að fyrrverandi ráðherra Mitterands verður utanríkisráðherra í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy sem tók formlega við embætti forseta Frakklands í morgun.

Ekki hefur verið tilkynnt formlega um hvaða ráðherrar sitja í nýrri ríkisstjórn Sarkozy en núverandi forsætisráðherra, Dominique de Villepin, víkur sem forsætisráðherra Frakklands eftir 714 daga í því embætti. Villepin tók við forsætisráðherraembættinu 31 maí 2005, af Jean-Pierre Raffarin, daginn eftir að Frakkar neituðu Evrópsku stjórnarskránni. Samkvæmt Le Figaro vill Sarkozy aðeins nota fjóra af ráðherrum Chiracs og þar með leggja áherslu á nýtt tímabil og nýtt upphaf. Það hefur vakið gríðarlega athygli og gagnrýni í röðum flokkssystkina Sarkozy að sósíalistinn Bernard Kouchner, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn François Mitterrand, verður utanríkisráðherra Sarkozy, samkvæmt upplýsingum dagblaðsins Libération. Miklar líkur eru líka á að að hægrimaðurinn Alain Juppé, fyrrverandi forsætisráðherra, taki sæti í nýrri franskri ríkisstjórn.

Í kosningabaráttu sinni lagði Sarkozy mikla áherslu á að kynjahlutföllin yrðu jöfn í ríkisstjórn sinni og því þarf hann að finna 7-8 konur fyrir vikulok til að gegna ráðherraembættum.

Mildari Sarkozy ?

Stjórnmálaskýrendur í frönskum fjölmiðlum velta nú fyrir sér hvort nýr forseti Frakklands, sem í þessum orðum er að taka við lyklavöldum í Elysée-höll í París, verði ekki eins afdráttarlaus og harður sem forseti eins og hann gaf til kynna í kosningabaráttu sinni. Þá var Sarkozy oft kallaður stríðsforingi bæði af stuðningsmönnum og andstæðingum sínum vegna áherslna sinna á öryggismál, harðari aðgerða gegn glæpum, og afnám 35 stunda vinnuviku. Hafa stjórnmálaskýrendur nefnt sem dæmi að Sarkozy fundaði með formönnum verkalýðsfélaganna áður en hann tók formlega við embættinu í dag. Það bendir til að hann leggi mikla áherslu á gott samstarf við þau en andstæðingar hans töluðu mikið um að hann yrði vanhæfur til að eiga samræður við verkalýðsfélögin í Frakklandi vegna harðrar stefnu sinnar um 35 stunda vinnuviku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert