Japanska þjóðin stendur nú agndofa eftir að greint var frá því að drengur, sem talinn er vera um þriggja ára, hafi verið skilinn eftir á sjúkrahúsi, sem tekur á móti óvelkomnum ungabörnum. Drengurinn segist hafa komið með föður sínum á sjúkrahúsið en hann fannst í „móttökukassa” fyrir óvelkomin börn sama dag og kassinn var tekinn í notkun. Hefur málið vakið upp miklar umræður um það hvort slík móttökuþjónusta bjóði upp á ábyrgðarleysi og misnotkun. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Það er algerlega óásættanlegt að henda barni á þennan hátt,” segir Shinzo Abe, forsætisráðherra landsins, og hvetur foreldra sem eiga erfitt með að standa undir þeirri ábyrgð sem þá er lögð til að leita til félagsmálayfirvalda. Lögregla segir hins vegar að lögbrot hafi ekki verið framið þar sem ekki hafi verið um glæpsamlegt athæfi að ræða þar sem barnið var skilið eftir á öruggum stað.
Atvikið átti sér stað á Jikei- sjúkrahúsinu í borginni Kumamoto en drengurinn er talinn hafa komið með föður sínum með lest til borgarinnar. Drengurinn mun vera við góða heilsu og vera vel á sig kominn. Þá er hann sagður hafa sagt til nafns.
Sjúkrahús víðs vegar um heim hafa opnað „móttökukassa" til að reyna að kom í veg fyrir að nýfædd börn séu deydd eða þau skilin eftir á götum úti.