Tíu mánaða gamalt barn fær byssuleyfi í Illinois

Ekki er vitað hvers konar byssu hinn 10 mánaða gamli …
Ekki er vitað hvers konar byssu hinn 10 mánaða gamli Bubba Ludwig fékk að gjöf Reuters

Bubba Ludwig er aðeins 10 mánaða gamall en hefur þrátt fyrir ungan aldur fengið byssuleyfi í Illinois-ríki í Bandaríkjunum. Faðir barnsins sótti um byssuleyfið eftir að afi drengsins gaf honum byssu að gjöf. Faðirinn, HowardLudwig, sagðist ekki hafa gert ráð fyrir að fá byssuleyfi fyrir barnungan son sinn en hann fyllti út eyðublað á netinu og greiddi 5 dollara eða um 310 krónur fyrir leyfið. Á skírteininu sem fylgir byssuleyfinu er mynd af tannlausum hvítvoðungnum og krúsidúlla sem barnið páraði með penna.

Vopnalög voru endurskoðuð eftir fjöldamorðin í Virginia Tech háskólanum fyrir skemmstu en byssumaðurinn í því máli, Cho Seung-hui, hafði fengið byssuleyfi þrátt fyrir sögu um andleg veikindi.

Lög Illinois-ríkis um vopnaeign eru með því strangasta sem gerist í Bandaríkjunum en lögregluyfirvöld staðfestu að umsækjandi hefði farið eftir lögum samkvæmt breska ríkisútvarpinu.

Faðir Bubba sagði við fjölmiðla að byssan myndi ábyggilega vera heima hjá afanum þar til drengurinn næði 14 ára aldri og sagði hann ennfremur að hann myndi ekki leyfa Bubba að fara á eftirlitslausar veiðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert