Algjört hrun blasir við Írak og hætta er á að landið liðist í sundur ef ekkert verður að gert. Þetta er mat Chatham House, sem er stofnun sem sér um hugmyndavinnu fyrir breska utanríkisráðuneytið, og kemur fram í nýrri skýrslu. Í skýrslunni segir að ríkisstjórn Íraks sé að mestu áhrifalaus víða í landina og er varað við því að í landinu geysi ekki aðeins eitt, heldur mörg borgarastríð í landinu.
Hvatt er til þess að Bretar og Bandaríkjamenn geri miklar breytingar á stefnu sinni varðandi Írak og ræði m.a. meira við nágrannaríki.
Tilkynnt var fyrr í dag að sendiherrar Bandaríkjanna og Írans ætluðu að ræðast við síðar í mánuðinum um málefni Íraks.
Utanríkisráðuneytið breska hefur svarað því til að átök eigi sér að mestu stað í aðeins fjórum af átján héruðum landsins, þar sem um 42% landsmanna búi. Þá sagði talsmaður ráðuneytisins að mikið hefði gerst í málefnum Íraks á skömmum tíma, en að mikilvægt sé að alþjóðasamfélagið standi heilshugar með írösku stjórninni.