Nítján ára bandarísk stúlka, Samantha Larson, komst á tind Everest, hæsta fjalls heims, og er hún yngsta erlenda konan sem hefur klifið tindinn, að því er nepalskir embættismenn greindu frá í dag. Tindurinn er í 8.848 metra hæð. Fjórtán ára nepölsk stúlka, Ming Kipa, er yngst þeirra sem komist hafa á þennan hæsta tind heims, en hún kleif hann 2003.
Larson fór á tindinn í gær, og varð þar með yngst allra sem hafa klifið hæstu tinda allra heimsálfanna sjö. Á undanförnum þrem dögum hafa að minnsta kosti 66 manns farið á tind Everest, en maí er sá mánuður sem flestir fara á fjallið vegna þess að þá er stund milli regntíða.
Nú munu um 550 manns vera að gera tilraun til að komast á tindinn, en þeir Tenzing Norgay og Edmund Hillary urðu fyrstir manna til að komast á hann árið 1953.