Fæðingum fjölgar mikið í Þýskalandi

Fleiri börn hafa fæðst í Þýskalandi það sem af er þessu ári en nokkru öðru tímabili undanfarna þrjá áratugi. Mest er aukningin í Bremen en á þessu ári hafa 21% fleiri börn fæðst í bænum en á sama tímabili á síðasta ári. Í Köln er aukningin 15,6%, í Magdeburg er hún 15,6% og í Erfurt 12,5%. Í Berlín hefur aukningin hins vegar einungis verið 5% en í Schöneberg-Tempelhof hverfi borgarinnar hefur hún þó verið 20%. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Telja margir að rekja megi hækkun fæðingartíðni í landinu til þess andrúmslofts sem ríkti í kring um heimsmeistaramótið i knattspyrnu síðastliðið sumar. Hagfræðingar segja hins vegar líklegra að bætt efnahagsástand geri það að verkum að fólk leggi fremur í barneignir en áður.

Fæðingatíðni í Þýskalandi er ein sú lægsta í Evrópu en um síðustu áramót var hún 1,34 börn á konu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert