François Fillon, nýskipaður forsætisráðherra Frakklands, kynnti í morgun ráðherralista sinn en 15 ráðherrar sitja í nýrri ríkisstjórn Frakklands. Helmingur ráðherrastólanna er skipaður konum og sósíalistinn Bernard Kouchner, sem er einn af vinsælustu stjórnmálamönnum Frakklands, verður utanríkisráðherra. Kouchner er einn af stofnendum samtakanna Læknar án landamæra.
Þá tekur Alain Juppé, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, við umhverfisráðuneytinu en Nicolas Sarkozy, nýr forseti Frakklands, hefur sagt að hann muni leggja mikla áherslu á þau mál. Jean-Louis Borloo verður efnahags- og atvinnumálaráðherra.