Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, bjargaði í gær lífi bresks drengs, sem var nærri drukknaður í sundlaug í spænska sumarleyfisbænum Torrevieja. Að sögn norskra fjölmiðla sá Storberget drenginn á botni sundlaugarinnar, stökk út í og sótti hann og tókst að lífga hann við.
Að sögn blaðsins Østlendingen var Storberget í spænska bænum til að flytja hátíðarræðu á samkomu Norðmanna þar í tilefni af þjóðhátíðardegi Noregs í gær. Hann segist í samtali við blaðið ekki líta á sig sem neina hetju.
„Allir sem eiga lítil börn vita hve innileg gleði fylgir því þegar svona atvik fara á besta veg," segir Storberget við blaðið.