Póker er orðinn að svo vinsælli íþrótt í Danmörku að meirihluti danska þingsins vill afnema lög sem banna fjárhættuspilið. Um leið streyma danskir spilafíklar í meðferð. Dómsmálaráðherrann Lene Espersen vill skipa nefnd sem undirbúa á lagabreytinguna og segir að ekki sé sérstaklega hættulegt að pókermót. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.
„Það er ekki hættulegt að spila póker á mótum. Þetta eru venjulegir heimilisfeður sem hittast og spila, þetta gera þeir um allt landið og spila um 300 – 400 krónur (um.þ.b. 3500 – 4500 íslenskar krónur). Þetta er bannað, hins vegar má spila um fé þegar um er að ræða bingó, brids og vist. Þessu vil ég breyta”, segir Espersen.
Gríðarlegur áhugi hefur skapast á póker um allan heim undanfarin ár og er áætlað að um.þ.b. 300.000 Danir spili reglulega póker á einn eða annan hátt. Spilamennskan fer þó ekki síst fram á netinu, þar sem ekki er fylgst með því hvort peningar séu í spilinu .
Sálfræðingurinn Michael Bay Jørsel, sem starfar hjá stofnuninni „Center for Ludomani”, sem sérhæfir sig í rannsóknum á spilafíkn, er ekki sammála Espersen. „Póker er eitraður því hann er leikinn mjög hratt og er í stuttu máli mikið hættuspil. Vissulega tapar fólk kannski 300-400 krónum, en það er líka hægt að vinna 10.000 krónur, og þá kemur græðgin upp í fólki og líkurnar aukast á að það fari annað þar sem spilað er um hærri upphæðir”.