Hamas og Fatah hreyfingarnar í Palestínu hafa komist að nýju vopnahléssamkomulagi, sem taka á gildi klukkan tólf á hádegi að íslenskum tíma. Ghazi Hamad, talsmaður forsætisráðherrans Ismail Haniyeh, sagði blaðamönnum í dag að komist hefði verið að samkomulaginu með aðstoð stjórnvalda og egypskrar sendinefndar.
Samkvæmt samkomulaginu eiga vopnaðir menn að yfirgefa stöður sínar í byggingum og á götum úti, fjarlægja vegatálma og sleppa gíslum úr haldi í dag.
Samkomulagið er það fimmta sem komist er að frá því að bardagar brutust út milli fylkinganna síðastliðinn sunnudag. Um fimmtíu manns hafa látist í bardögunum.