Áætlað er að um 50.000 manns hafi mótmælt í dag í borginni Samsun í norðausturhluta Tyrklands til að krefjast þess að stjórnskipulag verði óbreytt í landinu. Múgurinn veifaði fánum með slagorðum þar sem stjórnarflokknum AK var var mótmælt og hann sakaður um að reyna að grafa undan veraldlegu stjórnskipulagi með íslömskum viðhorfum.
Í kjölfar mótmælanna í Samsun hafa einnig brotist út mótmæli í Istanbul, Ankara og Izmir.
Kosningum í landinu var flýtt vegna mótmæla gegn ákvörðun um skipun forseta úr röðum flokksins. Kjörtímabilinu lýkur í nóvember en boðað hefur verið til kosninga 22. júlí. AK, flokkur forsætisráðherrans Recep Tayyip Erdogans ræður nú 60% þingsæta í tyrkneska þinginu. Flokkurinn á rætur að rekja til íslamskra gilda og þeir Tyrkir sem vilja standa vörð um veraldlegt stjórnkerfi landsins óttast að verði forseti kjörinn úr röðum flokksins verði ekkert eftirlit með gerðum stjórnarinnar.