Pútín afboðar viðtal vegna mynda frá Tétsníu

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti afboðaði viðtal við austurríska ríkissjónvarpið, ORF, eftir að stöðin neitaði að hætta sýningum á kynningu þar sem m.a. voru myndir frá átökum í Tétsníu, að því er ÓRF greindi frá í dag. Pútín er væntanlegur í opinbera heimsókn til Austurríkis á miðvikudaginn.

Fréttastjóri ORF, Elmar Oberhauser, sagði í yfirlýsingu í dag að ekki hefði komið til greina að láta undan þessum óduldu tilraunum til að hefta frelsi stöðvarinnar. Væri stöðin reiðubúin að taka afleiðingum þess að fá ekki fyrirhugað viðtal við Pútín.

Rússar hefðu komið þeim boðum til skila eftir diplómatískum leiðum að viðtalið hefði verið afboðað vegna „óvinsamlegs fréttaflutnings ORF í aðdraganda opinberrar heimsóknar“ Pútíns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert