Uppreisnarmenn í Kongó hóta að drepa sjaldgæfar górillur

Fjallagórilla í Kongó.
Fjallagórilla í Kongó. Reuters

Hópur vopnaðra manna í Kongó, sem enn halda uppi baráttu eftir blóðugt borgarastríð í landinu 1998-2002, réðust á eftirlitsstöðvar á náttúruverndarsvæði í austurhluta landsins og hótaði að drepa hóp af sjaldgæfum górillum ef öryggissveitir gerðu gagnárás, að því er náttúruverndarsinnar greindu frá í dag.

Einn þjóðgarðsvörður féll í árás uppreisnarmannanna á þrjár eftirlitsstöðvar í garðinum í fyrradag. Þrír verðir særðust í árásinni. Uppreisnarmenn á svæðinu drápu fjallagórillur þar í janúar, en þær eru í útrýmingarhættu, og í fyrra drápu þeir hundruð flóðhesta með vélbyssuskothríð.

Um er að ræða hóp um 200 vopnaðra manna er kallast Mayi-Mayi. Þeir börðust með stjórnarhernum í borgarastríðinu, en hafa ekki viljað ganga í hersveitir stjórnarinnar síðan stríðinu lauk. Þúsundir friðargæsluliða SÞ eru einni í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert