Áhrifamiklir fulltrúar sjíta og súnníta leita sátta í Írak

Piltur á vettvangi sprengjuárásar sem varð tuttugu manns að bana …
Piltur á vettvangi sprengjuárásar sem varð tuttugu manns að bana í Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Reuters

Áhrifamikill höfðingi súnníta, sem styður veru Bandaríkjahers í Írak, átti fund með fulltrúum sjítaklerksins Moqtada al-Sadr í hverfinu Sadr City í Bagdad, höfuðborg landsins, í dag til að ræða hugsanlegar sættir andstæðra fylkinga í landinu.

„Fundurinn var hugsaður sem skilaboð til íraskra stjórnmálamanna um að leggja ágreiningsmál sín til hliðar og leita raunverulegra sátta,” sagði Sjeik Hamid al-Hayis, yfirmaður hernaðararms samtaka ættbálka súnníta sem berjast við hlið Bandaríkjahers gegn liðsmönnum al Qaeda í Anbar-héraði í vesturhluta landsins.

„Við erum að reyna að þrýsta á ríkisstjórnina að gera pólitískar breytingar sem væru írösku þjóðinni, sem nú er að drukkna í blóði sona sinna, í hag,” sagði hann.

„Þessi heimsókn sýnir að íraskir ættbálkar standa hlið við hlið og að þeir eru naglarnir sem reknir verða í kistu núverandi flokkadrátta sem eru að kljúfa land okkar,” sagði sjítaklerkurinn sjeik Malik Sewadi al-Mohammedawi eftir fundinn. Þrír fulltrúar Moqtada al-Sadr sátu fundinn fyrir hans hönd en sjálfur hefur Sadr ekki sést opinberlega mánuðum saman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert