Leiðtogar Hamas-samtakanna á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum eru nú sagðir hafa slökkt á farsímum sínum til að reyna að koma í veg fyrir að Ísraelar hafi upp á þeim. Í gær lýsti Ephraim Sneh, aðstoðarvarnarmálaráðherra Ísraels, því yfir að enginn leiðtogi samtakanna nyti friðhelgi fyrir árásum Ísraela eftir að kona lét lífið í flugskeytaárás samtakanna. Er það m.a. talið eiga við um Ismail Haniya, forsætisráðherra heimastjórnar Palestínumanna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Hinn pólitíski armur Hamas hefur gefið grænt ljós á þessar flugskeytaárásir,” sagði Sneh. „Liðsmenn hans eru því hryðjuverkamenn og enginn þeirra nýtur friðhelgi.”
Rúmlega 30 Palestínumenn hafa fallið í árásum Ísraela á Gasasvæðið á undanförnum dögum en konan sem lét lífið í Sderot, í suðurhluta Ísraels, í gær var fyrst Ísraela til að láta lífið í yfirstandandi átökum. Ellefu þeirra sem látið hafa lífið í árásum Ísraela á Gasasvæðið eru sagðir hafa verið óbreyttir borgarar.