Breska ríkissaksóknaraembættið hefur komist að þeirri niðurstöðu, að nægar vísbendingar séu fyrir hendi til að ákæra rússneska kaupsýslumanninn Andrei Lugovoi fyrir að myrða rússneska njósnarann Alexander Lítvínenko með geislavirka efninu pólón-210. Segist embættið munu fara fram á að Lugovoj verði framseldur til Bretlands svo hægt verði að ákæra hann fyrir morðið. Enginn framsalssamningur er í gildi milli Bretlands og Rússlands.
Lugovoi hitti Lítvínenko í Lundúnum skömmu áður en sá síðarnefndi veiktist. Lugovoi var sjálfur lagður inn á sjúkrahús í Moskvu vegna gruns um póloneitrun. Breskir lögreglumenn fengu að yfirheyra hann þar.
Sir Ken Macdonald, ríkissaksóknari, sagði að það væri í almannaþágu að leggja fram ákæru í málinu.
„Ég hef í dag komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögn, sem lögregla hefur sent okkur, nægi til að ákæra Andrei Lugovoi fyrir morðið á Lítvínenko með því að hafa eitrað vísvitandi fyrir hann," sagði Macdonald í yfirlýsingu sem hann las.