Skotið á bílalest SÞ í Líbanon

Skotið var á bílalest á vegum Sameinuðu þjóðanna sem var að flytja matvæli og hjálpargögn til Nahr el Bared flóttamannabúðanna í norðurhluta Líbanons í dag. Sendiferðabíll og vatnsflutningabíll stofnunarinnar voru komir inn í búðirnar er á þá var skotið samkvæmt upplýsingum talsmanns flóttamannahjálpar SÞ en aðrir bílar í lestinni náðu að snúa frá búðunum er skothríðin hófst. Ekki er ljóst hvort slys urðu á fólki en átta til tíu starfsmenn voru í bílunum. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Bílarnir voru sendir inn í búðirnar þar sem nokkurt hlé hafði verið á bardögum líbanska stjórnarhersins og liðsmanna al Fatah Islam-samtakanna. p> Fyrr í dag gáfu líbönsk yfirvöld stjórnarhernum heimild til að „ganga frá” liðsmönnum al Fatah Islam. Heldur dró þó úr bardögunum eftir hádegi í dag eftir að samtökin lýstu yfir einhliða vopnahléi. Nú í eftirmiðdaginn blossuðu bardagar hins vegar upp að nýju en ekki er ljóst hver átti upptökin að þeim.

Um fjörutíu þúsund Palestínumenn búa í búðunum og notuðu margir þeirra tækifærið er hlé varð á bardögunum í dag til að flýja búðirnar. Þá kveiktu Palestínumenn í dekkjum í tveimur öðrum flóttamannabúðum í landinu til að mótmæla aðgerðum líbanska stjórnarhersins við Nahr el Bared búðirnar.

Að minnsta kosti 20 liðsmenn al Fatah Islam, 32 stjórnarhermenn og 27 óbreyttir borgarar hafa fallið frá því átökin brutust út´á sunnudagsmorgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert