Utanríkisráðherra Noregs telur þörf á að styrkja alþjólegt orðspor landsins, en fyrst vill hann komast að því hvernig ímynd Norðmanna sé á alþjóðavettvangi. Spurningin er hvort Norðmenn séu álitnir vingjarnlegir en óáhugaverðir, eða ríkir og hrokafullir.
Utanríkisráðherrann, Jonas Gahr Störe, er samkvæmt skoðanakönnunum einn virtasti og vinsælasti stjórnmálamaður landsins, og hann vill að Noregur njóti sömu virðingar og tryggja sess landsins meðal heimsbyggðarinnar.
Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten, og segir Störe hafa skipað nefnd sem á að veita utanríkisráðuneytinu ráðgjöf um hvernig bæta megi ímynd Noregs erlendis. Ráðherranum er til dæmis í mun, að landið verði ekki einungis frægt fyrir hátt verðlag.
Í nefndinni á sæti þekkt fólk úr öllum stjórnmálaflokkum, þ.á m. lögmaðurinn Knut Brundtland, sonur Gro Harlem, Ase Kleveland, fyrrverandi menningarmálaráðherra, og Kristin Clement, fyrrverandi þingkona sem mun einhverntíma hafa látið þau orð falla að erlendis væri litið á Noreg sem lítið land og auðugt, en líka illgirnislegt.