Grænfriðungar stilltu upp dauðum smáhvölum og höfrungum á Sergelstorgi í miðborg Stokkhólms í gær og vildu með því leggja áherslu á kröfur sínar um að Alþjóðahvalveiðiráðið hvikaði ekki frá hvalveiðibanni. Ársfundur ráðsins hefst í Alaska í næstu viku.
Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga á Norðurlöndum, sagði við fjölmiðla að sænsk stjórnvöld styddu takmarkaðar hvalveiðar í atvinnuskyni og það væri óábyrg afstaða.
Svíar greiddu atkvæði gegn ályktun um hvalveiðar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í fyrra. Thomas Uddin, talsmaður sænska umhverfisráðuneytisins, segir að sænsk stjórnvöld muni því aðeins fallast á atvinnuhvalveiðar að vísindanefnd hvalveiðiráðsins styðji þær.
Per Stig Møller, utanríkisráðherra Dana, sagði í gær að þarlend stjórnvöld styðji takmarkaðar og vísindalegar hvalveiðar undir eftirliti ef þær séu stundaðar á sjálfbæran hátt. Greininni var beint til breskra stjórnvalda sem hafa sakað Dani um að svíka Evrópusambandið í hvalamálinu.
David Frost, sendiherra Breta í Danmörku skrifaði í gær grein í Politiken þar sem hann bendir á að Danir hafi verið eina ESB-ríkið, sem greiddi tillögu um hvalveiðar atkvæði í fyrra.