Íranar gætu smíðað kjarnorkusprengju á þrem til átta árum, sagði Mohamed ElBaradei, yfir maður Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar (IAEA), í dag, en varaði Vesturlönd jafnframt við því að grípa til hernaðaraðgerða til að koma í veg fyrir það. „Við getum ekki tryggt frið með sprengjum,“ sagði hann.
Þetta kom fram í máli ElBaradeis á fundi í Lúxemborg í dag þar sem rætt var um aðgerðir til að koma í veg fyrir kjarnorkuhörmungar. Erfitt væri að segja nákvæmlega til um hversu nærri Íranar væru því að geta smíðað kjarnavopn, ef þeir vildu svo við hafa, en ElBaradei kvaðst sammála því áliti Bandaríkjamanna að það gæti orðið á næsta áratug.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur tvívegis samþykkt refisaðgerðir gegn Íran til að reyna að fá ríkið til að hætta við kjarnorkuáætlun sem Íranar aftur á móti segjast eingöngu ætla að nota í friðsamlegum tilgangi.
ElBaradei hvatti í dag ríkin sem eiga fastafulltrúa í ráðinu til að beita ekki hótunum um valdbeitingu til að telja ríki frá því að smíða kjarnavopn. Fremur ætti að reyna að takast á við undirliggjandi orsakir á borð við sívaxandi fátækt er leiði til mannréttindabrota, niðurlægingar og á endanum ofbeldisverka.