Bresk yfirvöld vísuðu í dag múslímaklerk frá Jamaíka úr landi eftir að hann hafði afplánað fangelsisdóm í Bretlandi. Klerkurinn var dæmdur fyrir að hafa hvatt til þess í ræðum sínum að myrða ætti Bandaríkjamenn, hindúa og gyðinga.
Abdullah el-Faisal, sem snerist til íslamstrúar, var fangelsaður árið 2003 og hann lauk afplánun sinni í Bretlandi í síðasta mánuði.
Hann hafði áfrýjað brottvísunni en henni var hafnað. Hann var því sendur með flugi til Jamaíka í dag að sögn breska innanríkisráðuneytisins.
John Reid, innanríkisráðherra Bretlands, sagði það vera verkefni ríkisstjórnarinnar að vernda almenning og það væri ljóst að erlendir ríkisborgarar sem gerist brotlegir við bresk lög, og afpláni fangelsisdóm í landinu, megi búast við því að verða sendir úr landi.
Dómurinn yfir Faisal var fyrsta prófraun á beita 140 ára gömlum lögum, sem banna fólki að hvetja aðra til þess að fremja morð, sem leið til þess að sækja íslamska öfgaklerka til saka eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001.
Bresk yfirvöld hafa sagt að predikanir Faisals hafi veitt a.m.k. einum sjálfsvígsárásarmannanna, sem gerðu árás á samgöngukerfið í London í júlí 2005, innblástur.