Vísindamenn við háskólana í Norður Karólínu og Georgíu í Bandaríkjunum hafa komist að þeirri niðurstöðu að dagurinn 23. maí sl. hafi verið sá fyrsti í sögu mannkyns þar sem fleiri jarðarbúar bjuggu í þéttbýli en í dreifbýli. Ef marka má tölur vísindamannanna bjuggu þá 3.303.992.253 í þéttbýli, en aðeins 3.303.866.404 í dreifbýli. Þetta kemur fram á vegsíðu háskólans í N-Karólínu.
Tölurnar eru að sjálfsögðu táknrænar, en vísindamennirnir hafa notast við mannfjöldatölur og spár Sameinuðu þjóðanna um fólksfjöldadreifingu árið 2010 til að komast að þessari dagsetningu. SÞ spá því að 51,3% mannkyns muni búa í þéttbýli árið 2010.
Aðstandendur verkefnisins benda þó á að ekki megi gera lítið úr hlutverki dreifbýlis, bæði þéttbýli og dreifbýli séu háð hvort öðru, en að borgir hins vegar geti ekki þrifist án dreifbýlis.
Þéttbýlisbúar eru í meirihluta víðast á vesturlöndum en í Bandaríkjunum hafa borgar- og bæjarbúar verið í meirihluta frá árinu 1910, aðeins 21% Bandaríkjamanna búa nú í sveit.