Umhverfisverndarsinninn og fyrrum varaforsetinn Al Gore gagnrýndi í dag áhuga fjölmiðla og almennings á slúðri og smámunum og hvatti til að fólk beini heldur sjónum sínum að málum á borð við Írak og loftslagsbreytingar. Gore kynnir um þessar mundir bók sína, „The Assault on Reason”, eða „Árásina á skynsemi”
Gore lét þessi orð falla þar sem hann áritaði bækur í New York. „Hvað er það við okkur sem fær okkur til að eyða mun meiri tíma í að tala um eða sækja upplýsingar um að Britney Spears raki á sér höfuðið, eða að Paris Hilton sé á leið í fangelsi?”, spurði Gore.
Hann sagðist harma að mörkin milli frétta og skemmtunar hefðu verið eyðilögð og sagði málefni á borð við stríðið í Írak og umhverfisvandann vera sópað í burtu og hunsuð vegna þess að þau væru óþægileg.
Gore hefur helgað sig baráttu fyrir breyttum viðhorfum í umhverfismálum síðan hann lét af embætti sem varaforseti Bandaríkjanna. Hann var nýlega tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels vegna starfa sinna og hlaut Óskarsverðlaun á þessu ári fyrir mynd sína „An inconvenient Truth”, sem gerð var eftir samnefndri bók eftir Gore.