Stofufangelsi framlengt yfir Aung San Suu Kyi

Stúlka í Myanmar situr við hliðina á veggspjaldi af Aung …
Stúlka í Myanmar situr við hliðina á veggspjaldi af Aung San Suu Kyi Reuters

Herforingjastjórn Myanmar, sem áður hét Búrma, hafa ákveðið að stjórnarandstæðingurinn og friðarverðlaunahafinn Aung San Suu Kyi skuli sita áfram í stofufangelsi. Fulltrúar herstjórnarinnar í Myanmar komu að húsi Aung San og lásu henni skipunina en hún átti að losna úr haldi á sunnudaginn. Hún hefur verið samfleytt í stofufangelsi síðan í maí 2003 en hún hefur eytt ellefu árum í stofufangelsi síðan 1990.

Stjórnmálaflokkur Aung San Suu Kyi vann sigur í þingkosningum árið 1990 en úrslit kosninganna voru hunsuð af her landsins sem tók völd í landinu tveimur árum fyrr. Árið 1991 fékk Aung San Suu Kyi Friðarverðlaun Nóbels.

Í síðustu viku sendu 59 þjóðarleiðtogar bréf til hershöfðingjans Than Shwe sem er hæstráðandi í landinu en í bréfinu báðu leiðtogarnir um lausn Aung San Suu Kyi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert