Breska blaðið Sunday Telegraph segir í dag, að Elísabet Englandsdrottning sé lítið hrifin af þeirri arfleifð, sem Tony Blair skilur eftir sig eftir 10 ára setu í stól forsætisráðherra. Er drottningin sögð hafa miklar áhyggjur af ýmsum stefnumálum Verkamannaflokksins og einkum þó því að Blair virðist engan skilning hafa á vandamálum landsbyggðarinnar.
Blaðið hefur eftir ónafngreindum nánum trúnaðarmönnum drottningar, að drottningin sé einnig lítið hrifin af afskiptum Blairs og ríkisstjórnar hans af rótgrónum hefðum, m.a. með því að endurskipuleggja lávarðadeild breska þingsins.
Þá er drottningin sögð deila áhyggjum með breskum herforingjum af því að erlend verkefni breska hersins, einkum í Írak og Afganistan, hafi veikt heimavarnir Bretlands.
Elísabet, sem er 81 árs, hefur verið þjóðhöfðingi Bretlands í 55 ár og starfað með 10 forsætisráðherrum.