Sendiherrar Bandaríkjanna og Írans í Írak hafa í dag átt fund um stöðu öryggismála í Írak. Eru þetta fyrstu tvíhliða viðræður þjóðanna tveggja í nærri þrjá áratugi. Fundurinn fer fram á skrifstofu Nouris al-Malikis, forsætisráðherra Íraks.
Fundinn sitja Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, og Hassan Kazemi Qomi, sendiherra Írans. Búist er við að Bandaríkjamenn haldi því fram, að Írnar veiti uppreisnarmannahópum í Írak ýmsa aðstoð en Íranar munu minna Bandaríkjamenn á, að þar sem þeir hersitji Írak beri þeir höfuðábyrgð á að tryggja öryggismál í landinu.
Íranar sögðu um helgina að þeir hefðu flett ofan af nokkrum njósnahringjum sem Bandaríkjamenn og stuðningsríki þeirra hefðu stýrt í Íran. Var svissneski sendiherrann kallaður til fundar í gær og krafinn skýringa á njósnahringjunum en Svisslendingar eru fulltrúar Bandaríkjanna í Íran.
Fundurinn í dag ef fyrsti formlegi fundur Írana og Bandaríkjamanna frá því löndin slitu stjórnmálasambandi árið 1980 í kjölfar uppreisnarinnar í Íran og gíslatökunnar í bandaríska sendiráðinu í Teheran.