Sendiherra Breta í Moskvu fór formlega fram á það við rússnesk stjórnvöld að þau framselji manninn sem er grunaður um að hafa myrt Alexander Lítvínenkó, fyrrum njósnara KGB.
Breskir saksóknar sögðu í síðustu viku að þeir vilji fá rússneska kaupsýslumanninn Andrei Lúgóvoj framseldan svo að breskur dómstóll geti réttað yfir honum vegna morðsins á Lítvínenkó, sem lést þann 23. nóvember eftir að hafa orðið fyrir pólon-eitrun.
Anthony Brenton, sendiherra Breta, lagði fram beiðni til rússneska utanríkisráðuneytisins að sögn talsmanns breska sendiráðsins. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.