Eadio Caracas (RCTV), elsta sjónvarpsstöð Venesúela hætti útsendingum skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi og þúsundir manna börðu potta og pönnur til að mótmæla þeirri ákvörðun Hugo Chavez, forseta landsins, að endurnýja ekki sjónvarpsleyfi Radio Caracas og afhenda það þess í stað nýrri ríkisstöð.
Stuðningsmenn Chavez skutu hins vegar upp flugeldum og fögnuðu ákvörðun forsetans.
RCTV var eina sjónvarpsstöðin, sem studdi stjórnarandstöðuna og náði til alls landsins. Chavez sagðist vera að auka lýðræðið í ljósvakanum með því að afhenda sjónvarpsmerkið almenningi. Hefur hann sagt að RCTV hafi hvatt til stjórnarbyltingar. Andstæðingar forsetans segja hins vegar að ákvörðun hans sé árás á málfrelsið og áfall fyrir lýðræðið.
Lögregla beitti vatnsbyssum og táragasi til að dreifa mannfjölda í Caracas og lenti síðar í gærkvöldi í átökum við mótmælendur, sem kveiktu í ruslatunnum. 11 lögreglumenn særðust.