Finnskir, franskir og breskir Grænfriðungar stóðu í nótt fyrir mótmælum við byggingarsvæði í Finnlandi þar sem verið er að reisa nýtt kjarnorkuver. Fullyrða Grænfriðungar, að brotið hafi verið ótal sinnum gegn reglugerðum í tengslum við bygginguna.
Mótmælendur lokuðu veginum að byggingarsvæðinu og klifruðu upp í byggingarkrana. Lögregla fjarlægði þá sem lokuðu veginum en Grænfriðungar eru enn í byggingarkrananum.
Talsmaður Teollisuuden Voima Oy, finnskt orkufyrirtækis sem er að reisa kjarnorkuverið, segir að mótmælin hafi engin áhrif haft á framkvæmdir í morgun. Einn krani af 16 sé að vísu óvirkur eins og er.
Bygging kjarnorkuversins, sem er það fimmta í Finnlandi, hefur tafist mjög vegna ýmissa vandamála sem komið hafa upp. Byggingin hófst árið 2005 og í byrjun síðasta árs kom í ljós að steypa, sem notuð var við bygginguna, uppfyllti ekki gæðakröfur. Vandamál hafa einnig komið upp við pípulagnir og sl. haust urðu skemmdir á byggingunni í óveðri.
Olkiluoto kjarnorkuverið er það fyrsta í heiminum, sem byggir á nýrri tækni. Upphaflega stóð til að það tæki til starfa 2009 en nú er ljóst að rafmagnsframleiðsla mun ekki hefjast fyrr en 2011.