Utanríkisráðherra Írans sagði í dag að Íranar gætu aðstoðað nágrannaríki sín við að þróa kjarnorkutækni til friðsamlegra nota. Líklegt þykir að ummæli ráðherrans muni ekki fara vel í Vesturveldin sem óttast að Íransstjórn vilji framleiða kjarnorkuvopn.
Manouchehr Mottaki lét ummælin falla viku eftir að Arabaríki við Persaflóa, sem hittust á fundi í Riyadh, hófu að kanna hagkvæmni þess að þróa kjarnorkuáætlun til borgaralegra nota. Íranar hafa sem kunnugt er neitað að verða við kröfum vestrænna ríkja að hætta að auðga úran.
Sádi-Arabar auk annarra ríkja við Persaflóa deila þeim áhyggjum með Vesturveldunum að Íranar ætli sér að framleiða kjarnorkuvopn, en því hafa stjórnvöld í Íran þráfaldlega neitað.
Óttast er að kjarnorkuáætlun Írana leiði til vígbúnaðarkapphlaups í Miðausturlöndum. Íranar eiga mögulega von á því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna muni beita þá refsiaðgerðum í þriðja sinn vegna málsins.