Japanar hafa gefið til kynna, að þeir séu tilbúnir til að falla frá áformum um að veiða hnúfubaka í vísindaskyni ef Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkir að gefa út hvalveiðikvóta til veiðimanna í fjórum strandbæjum í Japan. Japanar hafa boðað að þeir áformi að veiða 50 hnúfubaka í vísindaskyni í Suðurhöfum síðar á þessu ári.
Joji Morishita, varaformaður japönsku sendinefndarinnar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sagði við blaðamenn rétt áður en fundurinn hófst í Anchorage í Alaska í dag, að Japanir kynnu að endurskoða áform sín um vísindaveiðar í Suðurhöfum síðar á árinu. En á móti myndu þeir fara fram á að ársfundurinn samþykkti tillögu um svonefndan frumbyggjakvóta fyrir fjögur strandhéröð í Japan.
Japanar hafa tilkynnt að þeir hyggist bæta 50 hnúfubökum við í vísindaveiðunum. Þessi áform hafa verið gagnrýnd harðlega af ýmsum þjóðum, einkum Áströlum og Nýsjálendingum en í báðum þessum löndum er hvalaskoðun blómlegur atvinnuvegur og þar eru hnúfubakar helsta aðdráttaraflið.
Í viðræðum við blaðamenn áður en fundurinn hófst í Anchorage í kvöld gaf Morishita til kynna, að verið væri að ræða málin bakvið tjöldin. „Við erum opin fyrir viðræðum (um hnúfubakamálið) og við kunnum að ná víðtæku samkomulagi sem allir sætta sig við. En við viljum mjög gjarnan að tillaga okkar um takmarkaðar strandveiðar fái góðar undirtektir."
Samkvæmt tillögu Japana fá strandhéröðin fjögur að veiða tiltekinn fjölda hrefna og sá kvóti verður dreginn frá vísindaveiðikvóta sem japönsk stjórnvöld hafa úthlutað undanfarin ár.
Gert er ráð fyrir að mest verði rætt um svonefndan frumbyggjakvóta á ársfundinum í Anchorage. Slíkir kvótar eru veittir þjóðflokkum sem hafa rótgróna hvalveiðihefð og nýta hvalkjöt sér til viðurværis. Frumbyggjakvótar eru veittir á fimm ára fresti og nú er komið að endurnýjun þeirra.
Grænlendingar vilja auka frumbyggjaveiðar sínar og fá að veiða hnúfubaka og Grænlandssléttbaka í fyrsta skipti. Í ljósi þess, að afurðirnar sem falla til við þessar veiðar, eru seldar, hefur því verið haldið fram, að í raun sé um að ræða atvinnuhvalveiðar.
Rússar vilja einnig viðbótarkvóta fyrir íbúa í Tsjúkotkahéraði og Bandaríkin vilja einnig að Inúítar í Alaska fái áframhaldandi veiðikvóta. Þess vegna eiga Bandaríkjamenn erfitt með að andmæla kröfum Grænlendinga.
Ljóst er að hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins verður ekki aflétt á þessum fundi en til þess þarf 3/4 atkvæða á ársfundi. Á síðasta fundi var samþykkt ályktun með naumum meirihluta um að ekki sé lengur þörf á hvalveiðibanninu. Nú er reiknað með því að andstæðingar hvalveiða hafi aftur náð yfirhöndinni því ný aðildarríki á borð við Króatíu, Kýpur, Ekvador, Grikkland og Slóveníu eru öll verndunarmegin við borðið en aðeins Laos er talið munu greiða atkvæði með hvalveiðisinnum.
Gert er ráð fyrir því að Japanir leggi fram harðorða ályktun gegn aðgerðum samtakanna Sea Shepherd, sem reyndu að trufla hvalveiðar Japana í Suðurhöfum í vetur og sigldu m.a. á hvalveiðiskip. Liðsmenn Sea Shepherd hafa boðað komu sína á Íslandsmið í sumar og segjast ætla að koma í veg fyrir hvalveiðar Íslendinga.