Norðmenn saka andstæðinga hvalveiða um hræsni

Andstæðingar hvalveiða klæddust hvalabúningum og komu saman í miðborg Anchorage …
Andstæðingar hvalveiða klæddust hvalabúningum og komu saman í miðborg Anchorage í gær en þar hefst ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins í dag. AP

Norðmenn saka Bandaríkjamenn og aðra andstæðinga atvinnuhvalveiða um hræsni og benda á að Bandaríkin séu ein helsta hvalveiðiþjóð heims þar sem Inúítar í Alaska veiði Grænlandssléttbak. Þá fari ólöglegar hvalveiðar fram víða um heim. Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins hefst í Alaska síðar í dag og er búist við hefðbundnu þrátefli þar milli þeirra þjóða sem vilja heimila takmarkaðar hvalveiðar og hinna sem vilja viðhalda hvalveiðibanninu.

Karsten Klepsvik, fulltrúi Norðmanna í Alþjóðahvalveiðiráðinu, segir í viðtali við AFP fréttstofuna, að reynt hefði verið að mála afar undarlega mynd af hvalveiðiþjóðum.

„Í raun eru Bandaríkjamenn ein helsta hvalveiðiþjóð heims en við styðjum tillögu þeirra um að frumbyggjar í Alaska fái áframhaldandi sléttbakskvóta með sama hætti og frumbyggjar í Rússlandi og á Grænlandi fá að veiða hvali."

Þá fullyrti Klepsvik, að víða færu fram ólöglegar veiðar á smáhvölum, þar á meðal í þeim löndum sem hæst töluðu gegn hvalveiðum. „Menn ættu að sýna heiðarleika og hætta því, sem ég kalla hræsni," sagði hann og bætti við, að tímabært væri að Alþjóðahvalveiðiráðið sinnti því hlutverki sínu, að stjórna hvalveiðum.

Á síðasta fundi hvalveiðiráðsins var ályktun um að ekki væri lengur þörf á hvalveiðibanninu samþykkt með naumum meirihluta. Hvalveiðibanninu verður hins vegar ekki aflétt nema 3/4 þingfulltrúa samþykki tillögu þess efnis.

„Þeir sem vilja leyfa afar takmarkaðar hvalveiðar eru reiðubúnir til að reyna að ná samkomulagi og gangast undir strangt veiðistjórnunareftirlit en það nægir hinum ekki. Þeir virðist því gera sig ánægða með að krefjast áframhaldandi „núllkvóta" og að hvalveiðibanninu verði viðhaldið."

Hvalveiðiráðið hefur lengi rætt um nýjar veiðistjórnunarreglur og Klepsvik segir að þær séu nú í raun tilbúnar en andstæðingar hvalveiða vilji ekki samþykkja þær þar sem þar með væri opnað á takmarkaðar hvalveiðar.

Reyna að koma málum áfram
Bæði hvalveiðisinnar og andstæðingar hvalveiða hafa að undanförnu reynt að finna leiðir til að þoka málum áfram innan hvalveiðiráðsins. Japanar buðu í byrjun ársins til ráðstefnu um hvalamálefni og náttúruverndarsamtök stóðu fyrir málþingi í New York þar sem Sir Geoffrey Palmer, fyrrum forsætisráðherra Nýja-Sjálands, var í forsæti.

Palmer skrifaði í síðustu viku grein á vef breska ríkisútvarpsins BBC og segir að á málþinginu hafi komið fram ýmsar hugmyndir um leiðir til að bæta skipulag og starf Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þar á meðal að breyta stofnsáttmála ráðsins til að fjarlægja eða takmarka verulega vísindahvalveiðar og tryggja að þjóðir geti ekki mótmælt nýjum reglum og þannig verið óbundnar af þeim.

Þá var einnig rætt hvort leyfa ætti atvinnuveiðar í takmörkuðum mæli, svo framarlega sem vísindaveiðum verði hætt og bann verði sett á alþjóðleg viðskipti með hvalaafurðir.

Grein Palmers

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert