Morð á 85 ára gamalli konu í Álaborg um helgina hefur vakið óhug í Danmörku. Konan bjó í þjónustuíbúð í fjölbýlishúsi og fannst þar látin á sunnudag. Segir lögregla að konan hafi bæði verið barin í höfuðið og stungin ítrekað með hnífi.
„Þetta var afar ofbeldisfullt og villimannslegt morð," hefur Ritzaufréttastofan eftir Frank Olsen, aðstoðarlögreglustjóra í Álaborg.
Lýst hefur verið eftir tveimur ungum karlmönnum í tengslum við morðið.