Barack Obama, sem sækist eftir útnefningu demókrata sem forsetaefni flokksins,hefur lagt fram heilbrigðisáætlun sem útvega öllum bandarískum borgurum sjúkratryggingar. Obama ákallar þó stjórnvöld, viðskiptalíf og neytendur til að deila með sér kostnaðinum við áætlunina. 45 milljónir Bandaríkjamanna eru án sjúkratrygginga.
Þessu lýsti öldungadeildarþingmaðurinn frá Illinois-ríki yfir í ræðu sem hann flutti í læknaháskólanum í Iowa. Obama segir að áætlun sín geti sparað hinum venjulega neytenda 2,500 dollara eða 154,325 íslenskar krónur á ári og færi öllum borgurum heilsugæslu.
Kostnaður við áætlunina er talinn vera 50-65 milljarðar dollara eða 3.086- 4.012 milljarðar íslenskra króna á ári, sem yrði að mestu fjármagnaður með því að hætta við aðgerðir til að minnka hátekjuskatt en það hefur verið í bígerð hjá stjórn Georg W. Bush.
Margar bandarískar fjölskyldur gjaldþrota vegna heilbrigðiskerfisins
Obama sagði ennfremur í ræðu sinni að sífellt hærri kostnaður almennings við heilsugæsluþjónustu í landinu hefði gert margar bandarískar fjölskyldur gjaldþrota og hefði orðið til þess að margar fjölskyldur væru án heilbrigðistrygginga.
Áætlun Obama gerir meðal annars ráð fyrir því að allir atvinnurekendur þurfi að taka þátt með einhverjum hætti í sjúkratryggingum launþega sinna, að þeir sem hafi ekki efni á sjúkratryggingum geti fengið styrk til þess með tilliti til innkomu sinnar og bannar tryggingafélögum að neita fólki um sjúkratryggingar á grundvelli fyrri sjúkrasögu. Obama boðaði að auki allsherjar yfirhalningu á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, eins og auknum fjárútlátum í að auka tækniframfarir og betri stjórnunarhætti.
Hillary Clinton, helsti andstæðingur Obama í slagnum um að verða frambjóðandi demókrata fyrir forsetakosningarnar 2008, hefur lýst því yfir að innleiða almennt sjúkratryggingakerfi en hefur ekki enn útlistað hvernig sú áætlun hennar lítur út.
45 milljónir Bandaríkjamanna eru ekki með sjúkratryggingu og sýna skoðanakannanir að heilbrigðisþjónusta er mjög ofarlega í huga bandaríska kjósenda