Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði í ávarpi sem hann beindi til íbúa Gasasvæðisins í dag að rekja megi þjáningar þeirra til öfgamanna. „Íbúar Gasa eru fórnarlömb öfgamanna og leiðtoga sem eru reiðubúnir til að úthella blóði þeirra og svipta þá rétti sínum til að lifa við frið og öryggi,” sagði hann. Þá sagði hann Ísraela ekki ætla að draga úr aðgerðum sínum gegn þeim sem skjóti flugskeytum frá Gasasvæðinu yfir landamærin til Ísraels. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
„Við höfum ekki í hyggju að gera nokkurs konar samkomulag hvorki við Hamas né Jihad samtökin," sagði hann. „Við ráðumst á þá og munum halda áfram að ráðast á þá.”