Bandaríkjamenn munu útnefna Robert Zoellick, fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sem forstjóra Alþjóðabankans. Þetta hefur fréttastofan AFP eftir hátt settum starfsmanni Hvíta hússins. Er haft eftir embættismanninum að reynsla Zoellicks í alþjóðamálum geri hann vel undirbúinn til að takast á við starfið.
Zoellick hóf störf fyrir ríkisstjórn Bush árið 2001 og var aðstoðarutanríkisráðherra á árunum 2005-2006. Hann sagði af sér í maí á síðasta ári og tók við starfi hjá Goldman Sachs, þar sem hann starfaði sem ráðgjafi á árum áður.