Umboðsmaður barna í Póllandi hefur dregið tilbaka ummæli sem hún lét falla í nýlegu blaðaviðtali þar sem m.a. var haft eftir henni að hún myndi biðja sálfræðinga um að rannsaka hvort ein persóna Stubbanna (e. Teletubbies) sé samkynhneigður..
Ewa Sowinska sagði á í viðtalinu að hinn fjólublái Tinky Winky, sem ber handtösku, gæti ýtt undir samkynhneigð.
Blaðamenn vikublaðsins Wprost minntust á þær fullyrðingar að Stubbarnir ýti undir samkynhneigð, og Sowinska svaraði því til að hún hefði heyrt þessar fullyrðingar. Þá spurðu blaðamennirnir út í Tinky Winky.
„Ég tek eftir því að hann heldur á handtösku, en ég áttaði mig ekki á því að hann er strákur. Í fyrstu hélt ég að þetta væri leiðinlegt fyrir hann,“ sagði Sowinska í blaðaviðtalinu sem embætti hennar fór yfir og samþykkti fyrir birtingu. „Síðar komst ég að því að það gætu verið leynilegar vísanir í samkynhneigð.“
Sowinska sagði að hún myndi biðja sálfræðinga á sínum vegum að skoða málið og „meta hvort þeir (þættirnir) geti verið sýndir á almennri sjónvarpsstöð og hvort umrætt vandamál sé í raun til staðar.“
Í dag sagði talskona Sowinsku, Wieslawa Lipinska, að umboðsmaður barna „hefur ekki beðið og mun ekki biðja“ sálfræðinga að rannsaka hvort Stubbarnir ýti undir samkynhneigð.
„Þeir eru skáldaðar persónur, og þeir tengjast raunveruleikanum á engan hátt. Taskan og skærin og aðrir leikmunir sem þessar skálduðu persónur nota eru þarna til þess að búa til skáldaðan heim sem talar til barna,“ sagði Lipinska. „Við munum ekkert aðhafast frekar hvað þetta mál varðar.“
Sowinska tilheyrir stjórnmálaflokknum Bandalag pólskra fjölskyldna, sem er andsnúinn réttindum samkynhneigðra og fóstureyðingum. Flokkurinn situr, sem minnihlutaflokkur, í samsteypustjórn forsætisráðherrans Jaroslaw Kaczynski.