Forseti Venesúela, Hugo Chaves hefur fordæmt það sem hann kallar nýjar árásir gegn ríkisstjórn hans eftir að hann endurnýjaði ekki leyfi sjónvarpsstöðvar sem var í andstöðu við hann. Chavez hvatti stuðningsmenn sína til að vera á varðbergi gegn valdaráni og hótaði að loka annarri sjónvarpsstöð, Globovision.
Fréttavefur BBC skýrir frá því að þúsundir manna um allt land hafi mótmælt annan daginn í röð eftir að Chavez ákvað að endurnýja ekki starfsleyfi sjónvarpsstöðvarinnar Radio Caracas (RCTV).
Í ávarpi til þjóðarinnar sem sjónvarpað var á öllum sjónvarpsrásum varði Chavez þessa ákvörðun og sagði sjónvarpsstöðina sem hefur starfað í 53 ár vera stanslausa árás á siðferðisþrek þjóðarinnar.
RCTV er vinsælasta sjónvarpsstöð þjóðarinnar og sjónvarpaði vinsælum þáttaröðum, svonefndum „telenovelas” eða sápum.