ESB skiptir sér ekki af hollenskum sjónvarpsþætti

Markos Kyprianou, sem fer með heilbrigðismál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafnaði því í dag að skipta sér af hollenskum raunveruleikasjónvarpsþætti þar sem dauðvona kona mun velja einn af þremur þátttakendum til að fá nýru sín að gjöf. Hann lagði hins vegar fram tillögu um það að Evrópusambandið gefi út líffæragjafakort sem gildi fyrir allt Evrópusambandið. Þetta kemur framá fréttavef Jyllands-Posten.

„Ég get ekki sagt að ég sé hrifinn af hugmyndinni. Hafi framleiðendurnir í huga að vekja athygli á vandanum, tel ég að þeir hefðu getað gert það á annan hátt,” sagði hann um sjónvarpsþáttinn en 40.000 manns eru nú á biðlistum eftir nýrum í Evrópu. Þá látast tíu manns innan Evrópusambandsins á dag vegna skorts á gjafalíffærum.

Forsvarsmenn hollensku sjónvarpsstöðvarinnar BNN lýstu því yfir í gær að ekki yrði fallið frá áætlunum um að senda þáttinn út en áætlanir um gerð þáttarins hafaverið harðlega gagnrýndar í Hollandi. Forsvarsmenn stöðvarinnar segja hins vegar að hann muni ýta undir þarfa umræðu um skort á líffæragjöfum í landinu.

Til stendur að líffæragjafinn sem kölluð er Lisa og sögð er 37 ára, byggi val sitt á upplýsingum um keppinautana og viðtökum við fjölskyldur þeirra og vini. Þá munu áhorfendur geta sent inn ábendingar með SMS-skilaboðum.

Breski prófessorinn John Feehally segir að það sem fram muni fara í þættinum eigi ekkert skylt við það hvernig ákvarðanir um líffæragjafir séu teknar úti í hinum raunverulega heimi og að þátturinn muni því ekki varpa ljósi á raunveruleg vandamál fólks sem bíður líffæragjafar.

Bart de Graaff, fyrrum sjónvarpsstjóri BNN lét úr nýrnabilum 35 ára að aldri og segja forsvarsmenn stöðvarinnar möguleika þátttakendanna þriggja vera mun meiri en möguleika þeirra sem eru á biðlistum eftir nýrum í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert