Gullbaðkar hvarf sporlaust

Gullbaðkar, sem metið er á 120 milljónir japanskra jena, eða um 60 milljónir íslenskra króna er horfið frá hóteli á Kominato, sem er sumarleyfissvæði austur af Tókýó. Lögregla hefur engar vísbendingar um það hver stal baðkarinu, eða hvernig það var flutt á brott.

Baðkarið var í baðhúsi fyrir karla á tíundu hæð á hótelinu og máttu hótelgestir nota það endurgjaldslaust, herbergið er aðeins opið fáeinar klukkustundir á dag, en annars var karið, sem vegur 80 kíló, hlekkjað við hurð í rammlæstu herberginu.

Starfsfólk hótelsins tilkynnti á miðvikudag um að baðkarið væri horfið, en hlekkirnir höfðu þá verið fjarlægðir. Engin ummerki eru um að karið hafi verið dregið á brott og virðist enginn hafa orðið var við það að baðkarið hafi verið flutt á brott. Lögregla viðurkennir að engar vísbendingar liggi enn fyrir um það hvernig var farið að ráninu, en gengið er út frá því að fleiri en einn hafi komið að aðgerðinni.

Svipað bað sem er í baðhúsi kvenna á hótelinu er enn á sínum stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert