Ali Larijani, aðalsamningamaður Írana um kjarnorkumál hafnaði þeim möguleika að Íran myndi láta af umdeildri kjarnorkuáætlun sinni og auðgunar úrans. Hann hélt í dag til Madridar til að ræða við Javier Solana utanríkismálastjóra Evrópusambandsins.
„Að hætta auðgun úrans er ekki rétta lausnin á deilunni um kjarnorkuáætlun Írans,” sagði hann við íranska fjölmiðla áður en hann lagði af stað til Spánar. „Fyrri reynsla sýnir að slík stöðvun er óásættanleg,” bætti hann við.
Hann mun ræða við Solana á morgun og þar á að kanna möguleikann á því að taka upp samningaviðræður um kjarnorkuáætlunina á nýjan leik.
Larijani sagði jafnframt að yfirvöld í Teheran væru reiðubúin til að útskýra áætlun sína fyrir vesturlöndum. „Við viljum halda áfram með okkar friðsamlegu kjarnorkuáætlun en aðrar þjóðir ættu ekki hafa neinar áhyggjur af því,” sagði Larijani.
Ekki var alveg ljóst hvort ummæli Larijanis merki að Teheran muni í kjölfarið veita vestrænum eftirlitsmönnum aðgang að kjarnorkuverum landsins til að taka af allan vafa um áform þeirra varðandi auðgun úrans.