Kaupmannahafnarlögreglan lýsir eftir vitnum að óútskýrðri skotárás sem gerð var á 26 ára karlmann á Amager í gærkvöldi. Samkvæmt Berlingske Tidende munaði millimetrum á að maðurinn létist er hann fékk skot í höfuðið þar sem hann sat fyrir framan tölvu í íbúð sinni á Frankrigsgade á Amager.
Maðurinn sat og spilaði tölvuleik er byssukúlan fór inn um gluggann og í nef hans. För kúlunnar stöðvaðist í kinnbeini hans undir öðru auganu.
„Hann hefur lýst atvikinu sem svo að hann hafi heyrt sprengingu og svo tók hann eftir því að hann væri með blóðnasir. Hann hringdi í föður sinn sem ók honum á slysavarðstofu þar sem kúlan uppgötvaðist,” sagði varðstjóri rannsóknarlögreglunnar í Kaupmannahöfn í samtali við Ritzau fréttastofuna.