Shimon Peres, varaforsætisráðherra Ísraels, tilkynnti í morgun að hann byði sig fram í embætti forseta landsins, en Knesset, þing Ísraels, kýs nýjan forseta 13. júní. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hafði áður lýst því yfir að Kadimaflokkurinn vildi fá Peres sem forsetaefni.
Peres, sem er 83 ára, er friðarverðlaunahafi Nóbels og einn þekktasti núlifandi stjórnmálamaður í Ísrael. Hann bauð sig einnig fram í forsetakjörinu árið 2000 en tapaði þá óvænt fyrir Moshe Katsav, fulltrúa Likudflokksins. Katsav á yfir höfði sér ákæru fyrir kynferðisbrot þegar hann lætur af embætti forseta og nýtur ekki lengur friðhelgi.